Fyrsti Íslandsmeistaratitill Valgerðar

Frá vinstri: Marín Aníta Hilmarsdóttir silfur, Valgerður Einarsdóttir Hjaltested gull og Melissa Tanja Pampoulie brons verðlaunahafar í sveigboga kvenna. Saman skipa þær þrjár einnig sveit Bogans sem sigraði í liðakeppninni. Ljósmynd/BFSÍ

Valgerður Einarsdóttir Hjaltested, frá Hæli í Hreppum, vann Íslandsmeistaratitilinn í sveigboga kvenna í fyrsta sinn á Íslandsmeistaramótinu í bogfimi innanhúss, sem fram fór um síðustu helgi. Valgerður vann einnig Íslandsmeistaratitilinn í félagsliðakeppni sveigboga kvenna ásamt liðsfélögum sínum í Bogfimifélaginu Boganum.

Úrslitaleikur Valgerðar og Marínar Anítu Hilmarsdóttur var jafn og æsispennandi en Valgerður sigraði 6-4 og rauf þar með fjögurra ára samfellda sigurgöngu Marínar Anítu. Þegar síðasta lotan byrjaði var staðan 4-4 og á síðustu ör úrslitalotunnar þurfti Valgerður 10 stig til þess að sigra eða jafna, og hún náði því.

Valgerður hreppti einnig brons í keppni um Íslandsmeistaratitil unisex (keppni óháð kyni) sem er ný viðbót hjá Bogfimisambandi Íslands, til þess að stuðla að keppni milli karla og kvenna og opna tækifæri fyrir þá sem eru kynsegin til að geta keppt um Íslandsmeistaratitil. Þetta er í fyrsta sinn sem veittur er kynlaus Íslandsmeistaratitill.

Á leið til Bretlands
Valgerður og Marín munu báðar keppa á Evrópubikarmóti í Bretlandi í apríl, þar sem síðustu þátttökuréttum á Evrópuleikana 2023 verður úthlutað. Það er talið mjög líklegt að önnur hvor þeirra vinni þátttökurétt á mótið fyrir Íslands hönd.

Að lokum má geta þess að ofan á öll þessi afrek helgarinnar þá er Valgerður einnig starfsmaður Bogfimisambands Íslands og sá hún um skipulagningu mótsins í heild sinni.

Fyrri greinÁrborg og Kötlusetur fengu styrki úr þróunarsjóði innflytjendamála
Næsta greinÖruggur sigur á heimavelli