Fyrsti heimasigur Ægis – Selfoss missti af dýrmætum stigum

Umkringdur Njarðvíkingum skorar Hrvoje Tokic sigurmark Ægis í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Tveir sex stiga leikir í fallbaráttu Lengjudeildar karla í knattspyrnu fóru fram í dag. Ægir vann góðan sigur á Njarðvík á meðan Selfoss tapaði gegn Leikni.

Uppskera Ægismanna á heimavelli hefur ekki verið drjúg í sumar og ljóst að liðið yrði að ná í þrjú stig í dag þegar Njarðvík, sem er í næst neðsta sæti deildarinnar kom í heimsókn. Njarðvíkingar voru sprækari framan af fyrri hálfleik en færin voru fá. Á 35. mínútu fengu Ægismenn hornspyrnu sem Sladjan Mijatovic sendi beint á kollinn á Hrvoje Tokic í miðjum vítateignum og markahrókurinn skallaði boltann í netið. Seinni hálfleikurinn var mjög fjörugur, þar sem bæði lið áttu stórhættulegar sóknir en mörkin urðu ekki fleiri og Ægir fagnaði 1-0 sigri.

Það var meira skorað á Selfossi þar sem Leiknir Breiðholti var í heimsókn. Leiknismenn komust yfir á 25. mínútu en Guðmundur Tyrfingsson jafnaði metin í næstu sókn Selfoss. Staðan var 1-1 í hálfleik og þegar korter var liðið af seinni hálfleik kom Gonzalo Zamorano Selfyssingum yfir eftir skemmtilegt spil. Á 67. mínútu fengu Leiknismenn vítaspyrnu og jöfnuðu úr henni og útlit fyrir spennandi lokasprett í leiknum. Allar vonir Selfyssingar voru þó kæfðar tíu mínútum fyrir leikslok þegar Leiknir skoraði tvö mörk á þremur mínútum og Selfyssingar áttu ekki afturkvæmt eftir það. Lokatölur á Selfossi 2-4.

Með sigrinum lyfti Leiknir sér upp úr þéttum botnpakka í 5. sætið með 14 stig. Selfoss er í 10. sæti með 10 stig, Njarðvík í 11. sæti með 8 stig og Ægir í botnsætinu með 7 stig.

Fyrri greinHeilsubót á Stokkseyri gerð að engu
Næsta greinSuðurlandsvegur lokaður í Flóanum