Fyrsti heimaleikur Selfoss í kvöld

Selfyssingar leika sinn fyrsta heimaleik í 1. deild karla í handbolta á þessum vetri í kvöld kl. 19:30 þegar liðið tekur á móti Fylki, eða "litla Selfossi" eins og liðið hefur verið nefnt.

Selfyssingar mættu Gróttu á útivelli í fyrsta leik og sigruðu með minnsta mun í hörkuleik. Fylkismönnum er ekki spáð ofarlega í vetur en þeir byrjuðu á jafntefli gegn Fjölni í fyrstu umferð. Í liðinu eru hörkuleikmenn sem munu ekki gefa Selfyssingum neitt í kvöld.

Níu leikmenn Fylkisliðsins eru annað hvort Selfyssingar eða fyrrum leikmenn Selfoss. Þar ber fyrstan að nefna hárgreiðslu- og lífstílsfrömuðinn Gústaf Lilliendahl sem á eflaust eftir að gera Selfyssingum skráveifur á línunni. Gústaf hefur verið yfirlýsingaglaður í vikunni og í samtali við sunnlenska.is sagðist hann ekki búast við öðru en öruggum sigri Fylkis í kvöld.

Hinir selfyssku leikmennirnir í röðum Fylkis eru Aðalsteinn Halldórsson, Ársæll Einar Ársælsson, Ástgeir Sigmarsson, Eyþór Lárusson, Eyþór Jónsson, Óskar Kúld Pétursson, Steinar Logi Sigurþórsson og Þorleifur Bóas Ragnarsson.