Fyrsti bikarmeistaratitill Selfyssinga í meistaraflokki

Blandað lið Selfoss varð í dag bikarmeistari í hópfimleikum en það er í fyrsta skipti sem lið frá Selfossi verður bikarmeistari í meistaraflokki. Bikarmót FSÍ fór fram í Iðu á Selfossi í dag.

Selfoss vann öruggan sigur í keppni blandaðra liða eftir að keppinautar þeirra í Stjörnunni misstigu sig en þessi tvö lið hafa háð harða baráttu í vetur. Selfoss fékk 52,150 stig en Stjarnan 47,500 stig en Selfyssingar sigruðu á öllum áhöldum með miklum yfirburðum.

Í kvennaflokki varð lið Selfoss í 3. sæti með 46,950 stig en baráttan um fyrsta sætið var á milli Gerplu og Stjörnunnar og sigruðu Gerplukonur tíunda árið í röð.

Sjö lið kepptu í meistaraflokki karla og kvenna og blönduðum liðum og var umgjörðin hin glæsilegasta og mótahaldið Selfyssingum til mikils sóma.

Fyrri greinÁrborg og KFG skildu jöfn
Næsta greinBarros skoraði þrennu