Fyrsti bikarinn í seilingarfjarlægð

Hamarskonur eiga möguleika á að vinna fyrsta titil félagsins í efstu deild í körfubolta þegar liðið tekur á móti Keflavík kl. 17 í dag.

Hamar og Keflavík eru í 1. og 2. sæti Iceland Express-deildarinnar og eru einu liðin sem eiga möguleika á deildarmeistaratitlinum. Hamarskonur eru ósigraðar í deildinni í vetur og vinni þær leikinn í dag er ljóst að Keflavík nær Hvergerðingum ekki að stigum.

Liðin hafa mæst þrisvar í vetur og hefur Hamar unnið tvo leiki og Keflavík einn. Hamar vann báða deildarleikina, heima 95-63 og úti 69-72 en Keflavík sigraði í Hveragerði þegar liðin mættust í Lengjubikarnum í haust, 65-75.

Það er ljóst að spennan verður mikil í Hveragerði í dag en félagið hefur aldrei unnið bikar í efstu deild eða bikarkeppni í körfubolta. Bæði lið treysta á góða liðsheild en spennandi verður að fylgjast með baráttu þeirra Jaleesa Butler og Jacquline Adamshick undir körfunni en þær hafa verið bestu leikmenn deildarinnar í vetur.