Fyrsta umferðin tefld í dag

Sigfús Kristinsson, byggingarmeistari og skákmaður, dró í töfluröð fyrir hönd Héðins Steingrímssonar, stórmeistara. Kristján Örn Elíasson, skákdómari, stýrði drættinum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Alþjóðlegt skákmót í tilefni af 30 ára afmæli Skákfélags Selfoss og nágrennis var sett á Hótel Selfossi í gærkvöldi en heimsmeistararnir tíu sem taka þátt í mótinu hefja leik í 1. umferð kl. 17:00 í dag.

Keppendur á mótinu eru stórmeistararnir Hannes Hlífar Stefánsson, Héðinn Steingrímsson og Helgi Áss Grétarsson, Mikhail Antipov frá Rússlandi, Sergei Zhigalko frá Hvíta-Rússlandi, Ahmed Adly frá Egyptalandi, Rafael Leitão frá Brasilíu og alþjóðlegu meistararnir Sarasadat Khademalsharieh frá Íran, Semyon Lomasov frá Rússlandi og Dinara Saduakassova frá Kasakstan. Keppendurnir tíu hafa samtals unnið 14 heimsmeistaratitla í mismunandi aldursflokkum.

Mótið hefst sem fyrr segir í dag en á skákhátíðinni verða margir aðrir viðburðir. Í gær var haldið málþing um stöðu skákíþróttarinnar á Íslandi og framundan er opna Suðurlandsmótið í skák, Íslandsmót í Fischer slembiskák, skákkennaranámskeið, skákdómaranámskeið, barnaskákmót og hraðskákmót.

Í fyrstu umferð mætast:
Borð 1: Ahmed og Helgi Áss
Borð 2: Saduakassova og Antipov
Borð 3: Hannes og Lomasov
Borð 4: Zhigalko og Khademalsharieh
Borð 5: Héðinn og Leitão

Fyrri greinCunningham með 30 stig og 20 fráköst í sigri á Sindra
Næsta greinRúta fór útaf í snarvitlausu veðri undir Eyjafjöllum