Fyrsta tap Selfoss í deildinni

Haukur Þrastarson skoraði 6 mörk fyrir Selfoss og sendi 12 stoðsendingar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tapaði sínum fyrsta leik í Olísdeild karla í handbolta í vetur þegar liðið heimsótti Hauka á Ásvelli í Hafnarfirði í kvöld. Lokatölur urðu 30-26.

Haukar höfðu frumkvæðið framan af fyrri hálfleik og leiddu 14-6 þegar 22 mínútur voru liðnar. Þá skoruðu Selfyssingar sex mörk í röð og náðu að minnka muninn í tvö mörk en staðan í leikhléi var 16-13.

Heimamenn voru skrefinu á undan í síðari hálfleik og leiddu lengst af með fjögurra marka mun en Selfoss náði að minnka muninn í tvö mörk, 27-25 þegar fimm og hálf mínúta var eftir. Nær komust Selfyssingar ekki og Haukar juku forskotið aftur í fjögur mörk á lokamínútunum.

Haukur Þrastarson var markahæstur Selfyssinga með 6 mörk, Einar Sverrisson skoraði 5 og sendi 6 stoðsendingar, Árni Steinn Steinþórsson skoraði 4, Hergeir Grímsson 3, Atli Ævar Ingólfsson og Guðjón Baldur Ómarsson 2 og þeir Sverrir Pálsson, Tryggvi Þórisson, Alexander Egan og Matthías Örn Halldórsson skoruðu allir 1 mark, en Matthías lét vel finna fyrir sér í vörninni og var með 7 brotin fríköst.

Sölvi Ólafsson varði 8/1 skot í marki Selfoss og var með 28% markvörslu og Pawel Kiepulski varði 6 skot og var með 37% markvörslu.

Með sigrinum jöfnuðu Haukar Selfyssinga að stigum á toppnum en liðin hafa 12 stig, eins og FH.

Fyrri greinFyrsti sigur Selfoss í deildinni
Næsta greinMicro:bit tækjaforritun í bókasafninu