Fyrsta tap Hamars – Öruggt hjá Selfyssingum

Rhys Sundimalt var stigahæstur Selfyssinga með 21 stig. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar tapaði sínum fyrsta leik í 1. deild karla í körfubolta þegar liðið fékk Hött í heimsókn í kvöld. Selfoss vann öruggan sigur á Álftanesi.

Hamar byrjaði leikinn vel og leiddi eftir 1. leikhluta en Höttur svaraði fyrir sig í 2. leikhluta og staðan var 47-49 í leikhléi. Hattarmenn höfðu frumkvæðið í seinni hálfleik en Hamar var aldrei langt undan. Hvergerðingar minnkuðu muninn í tvö stig um miðjan 4. leikhluta en Höttur náði að halda aftur af þeim og verja sigurinn. Lokatölur urðu 82-87.

Everage Richardson var drjúgur fyrir Hamar með 24 stig og 10 fráköst, Toni Jelenkovic skoraði 20 stig, Ragnar Ragnarsson 12 og Bjarni Rúnar Lárusson 11.

Selfossliðið sterkt á lokakaflanum
Selfyssingar unnu góðan heimasigur gegn Álftanesi. Gestirnir byrjuðu reyndar betur og komust tíu stigum yfir en þá sneru Selfyssingar við blaðinu. Staðan var 34-32 í leikhléi og eftir jafnan 3. leikhluta voru Selfyssingar sterkari á lokakaflanum og unnu sanngjarnan sigur, 70-59.

Rhys Sundimalt var stigahæstur Selfyssinga með 21 stig, Kristijan Vladovic skoraði 13, Christian Cunninghan 11 auk þess að taka 20 fráköst og Páll Ingason skoraði 10 stig.

Spenna á toppnum
Höttur tók toppsætið af Hamri með sigrinum en Hamar á leik til góða og er í 2. sæti með 14 stig. Selfyssingar hoppuðu upp í 5. sætið í kvöld og hafa 6 stig.

Fyrri greinSpennan magnast eftir að Lomasov lagði Leitão
Næsta greinKartöflur passa með öllu og bragðast alls ekki illa