Fyrsta tap Hamars í vetur

Úr leiknum í gærkvöldi. Ljósmynd/Aðsend

Hamar og Afturelding áttust við í toppslag úrvalsdeildar karla í blaki í gærkvöldi. Hamarsmenn voru fyrir leikinn á toppnum með 24 stig eftir átta leiki en Afturelding í 2. sæti með 16 stig eftir 7 leiki.

Frá fyrstu mínútu var ljóst að Afturelding var mætt í Hveragerði til að sækja stig á meðan heimamenn voru á hælunum. Afturelding vann fyrstu hrinuna örugglega 25-19 en spennan var meiri í annarri hrinu og upphækkun þurfti til að knýja fram sigur. Hann datt aftur Aftureldingar 26-24.

Þriðja hrinan var einnig jöfn og spennandi. Upp úr miðri hrinu náði Hamar forystu og í stöðunni 20-15 virtust heimamenn ætla að sigla henni örugglega í höfn. Gestirnir gáfust ekki upp og minnkuðu muninn í 24-23 en klúðruðu svo uppgjöfinni og Hamarsmenn unnu þar með hrinuna 25-23. Í fjórðu hrinu byrjuðu Hamarsmenn betur. Þeir höfðu frumkvæðið alla hrinuna og unnu hana að lokum örugglega 25-18.

Liðin voru þar með búin að tryggja sér sitthvort stigið í leiknum og oddahrina nauðsynleg til að ákvarða hvort liðið tæki þriðja stigið og þar með sigurinn. Oddahrinam var jöfn framan af en í stöðunni 8-8 náðu gestirnir yfirhöndinni og unnu hrinuna 15-11 og leikinn þar með 3-2.

Tomek Leik var stigahæstur hjá Hamri með 16 stig en hjá Aftureldingu var Roman Plankinn með 21 stig.

Fyrri greinKallað eftir tilefningum fyrir Viðurkenningahátíð FKA
Næsta greinAustur-Eyfellingar frumsýna í kvöld