Fyrsta tap Árborgar – Uppsveitir lutu í gras

Gústaf Sæland skoraði fyrir Uppsveitir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Árborg og Uppsveitir töpuðu sínum leikjum í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld en þetta var fyrsta tap Árborgar í deildinni. Liðið mætti Vængjum Júpíters í uppgjöri efstu liðanna.

Aron Freyr Margeirsson kom Árborg yfir á 11. mínútu en fimm mínútum síðar voru Vængir komnir í 2-1 með mörkum frá Bjarka Fannari Arnþórssyni og Aroni Heimissyni. Vængir voru ekki hættir. Jónas Breki Svavarsson skoraði tvívegis og Aron Páll Símonarson eitt til og staðan í hálfleik var 5-1. Árborgarar í brattri brekku. Aron Páll kom Vængjum í 6-1 í upphafi seinni hálfleiks en Jökull Hermannsson minnkaði muninn fyrir Árborg tveimur mínútum síðar. Það reyndist síðasta mark leiksins og Vængir Júpíters sigruðu 6-2.

Á Flúðum var KH í heimsókn og þar byrjuðu heimamenn betur, með frábæru marki frá Gústaf Sæland á 14. mínútu. Haukur Hilmarsson jafnaði fyrir KH á 22. mínútu en tíu mínútum síðar komust Uppsveitir aftur yfir, þegar Sergio Fuentes átti skot sem fór af varnarmanni og í netið. Staðan 2-1 í hálfleik. Uppsveitamönnum gekk hins vegar ekki að sækja fyrsta sigur sumarsins í kvöld því Kristinn Kári Sigurðarson jafnaði fyrir KH á 60. mínútu og þremur mínútum fyrir leikslok tryggði Magnús Axelsson KH 2-3 sigur.

Staðan í deildinni eftir sjö umferðir er þannig að Vængir Júpíters eru á toppnum með 18 stig en Árborg í 2. sæti með 16. Uppsveitir eru sem fyrr á botninum án stiga.

Önnur úrslit í 7. umferð 4. deildarinnar:

Skallagrímur 3 – 1 Álftanes
1-0 Viktor Ingi Jakobsson (’7)
1-1 Mariusz Baranowski (’15)
2-1 Alejandro Serralvo (’48)
3-1 Sölvi Snorrason (’70)

Fyrri greinSuðrakeppendur fengu magnaðar móttökur
Næsta greinStærsta og skemmtilegasta hjólreiðamót landsins um helgina