Fyrsta tap Ægis

Dimitrije Cokic. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægismenn misstigu sig á heimavelli í kvöld þegar þeir fengu Þrótt Vogum í heimsókn á Þorlákshafnarvöll í 2. deild karla í knattspyrnu.

Þróttarar komust yfir eftir aðeins 50 sekúndna leik en tveimur mínútum síðar fengu Ægismenn vítaspyrnu þegar brotið var á Antoni Fannari Kjartanssyni innan teigs og Sigurður Hrannar Þorsteinsson fór á punktinn og skoraði. Eftir þetta gekk liðunum illa að halda uppi spili vegna vindgangs á vellinum og staðan var 1-1 í hálfleik.

Þróttarar reyndust sterkari með vindinn í bakið í seinni hálfleiknum. Þeir komust aftur yfir á 52. mínútu en Dimitrije Cokic jafnaði með laglegu aukaspyrnumarki á 69. mínútu. Þróttarar skoruðu sigurmark leiksins á 78. mínútu og voru nær því að bæta við mörkum í framhaldinu, heldur en Ægismenn að jafna metin.

Þetta var fyrsta tap Ægis í deildinni í sumar en þrátt fyrir það situr liðið áfram í 2. sæti með 11 stig.

Fyrri greinTólfþúsundasti íbúinn heimsóttur
Næsta greinHún hataði lagið