Fyrsta tap Þórsara í deildinni

Þór Þorlákshöfn tapaði sínum fyrsta leik í Domino's-deild karla í körfubolta í kvöld þegar liðið heimsótti topplið Keflavíkur. Lokatölur í bítlabænum voru 97-88.

Leikurinn var jafn til að byrja með á meðan liðin voru að finna körfuna og láta reyna á skotin, en snemma í fyrsta leikhluta fóru Keflvíkingar að blása til sóknar og herða tökin í vörninni. Eitthvað virtist vörn heimamanna koma Þórsurum á óvart, því Keflvíkingar náðu mest 15 stiga forustu og héldu henni nánast allan fyrsta leikhluta. Að fyrsta leikhluta loknum var staðan 35-22 heimamönnum í vil.

Annar leikhluti var mjög svipaður þeim fyrri en Þórsarar voru þó ívið betri. Mike Cook hafði ekki verið að hitta vel fyrir Þórsara og var hann einungis með tvö stig í upphafi annars leikhluta en endaði hálfleikinn með 9 stig. Staðan í hálfleik var 55-41.

Þriðji leikhluti var frekar rólegur þar sem að heimamenn virtust ætla að halda leiknum í 15-20 stigum allt til loka, staðan eftir þrjá leikhluta var 81-62.

Í fjórða leikhluta ætlaði allt um koll að keyra, Þórsarar hófu þá skothríð sem skilaði þeim 15-0 áhlaupi en á meðan skutu Keflvíkingar aðeins púðurskotum því þeir skoruðu ekki fyrstu 5 mínútur leikhlutans. Þeir grænklæddu, með dyggum stuðningi sinni manna, sem höfðu gert sér ferð til Keflavíkur og létu vel í sér heyra náðu að minnka forskot heimamanna í þrjú stig þegar um tvær mínútur voru eftir, 89-86. Þórsarar hittu hins vegar illa á lokamínútunum á meðan Keflvíkingar kláruðu leikinn á vítalínunni.

Nemanja Sovic var stigahæstur hjá Þór með 30 stig og 16 fráköst og Ragnar Nathanaelsson átti sömuleiðis fínan leik með 22 stig, 16 fráköst og 4 varin skot. Þorsteinn Már Ragnarsson skoraði 11 stig, Mike Cook Jr. og Tómas Heiðar Tómasson 9, Baldur Þór Ragnarsson 4 og Halldór Garðar Hermannsson 3.

Þetta var fyrsta tap Þórsara í deildinni en eftir fjóra leiki eru þeir í 5. sæti með 6 stig.

Umfjöllun karfan.is um leikinn

Fyrri grein„Þríburarnir“ sigruðu söngkeppnina
Næsta greinFrábær stemmning á sælkerakvöldi