Fyrsta stigið í fjóra mánuði

Selfyssingar náðu í sitt fyrsta stig síðan í 2. umferð N1-deildar karla í handbolta með því að gera jafntefli við Hauka á Selfossi í kvöld.

Liðin voru lengi í gang en Haukar höfðu yfirhöndina framan af leiknum og leiddu í hálfleik, 11-14. Selfyssingar náðu tvívegis að jafna í fyrri hálfleik en leikur beggja liða var brokkgengur.

Haukar náðu mest fjögurra marka forskoti þegar um 8 mínútur voru eftir af leiknum en þá hrukku Selfyssingar í gang og skoruðu sjö mörk gegn þremur á lokakaflanum. Niðurstaðan var jafntefli en Selfyssingar munu líklega naga af sér handarbökin þar sem þrjú vítaköst og átta hraðaupphlaup fóru í súginn. Selfyssingar fengu tvívegis færi á að jafna í stöðunni 24-25 og höfðu svo tækifæri til að skora sigurmarkið eftir frábæra markvörslu Helga Hlynssonar á lokasekúndunum.

Allt kom fyrir ekki en þrátt fyrir það fögnuðu Selfyssingar vel í leikslok enda fyrsta stigið í húsi síðan 7. október.

Guðjón Finnur Drengsson var markahæstur Selfyssinga með 8/6 mörk. Ragnar Jóhannsson skoraði 7, Atli Kristinsson 4, Andrius Zigelis 3, Milan Ivancev 2 og Atli Hjörvar Einarsson 1.

Birkir Bragason varði 9 skot í marki Selfoss og Helgi Hlynsson 4.

Fyrri greinBílvelta við Hryggi
Næsta greinHamar í fallsæti