Fyrsta stig KFR

KFR vann sitt fyrsta stig í 3. deildinni í sumar þegar liðið gerði markalaust jafntefli við Björninn á heimavelli í kvöld.

Bæði lið voru þétt fyrir varnarlega í fyrri hálfleik og ekki dró til tíðinda fyrr en á 20. mínútu þegar Jóhann Gunnar Böðvarsson bjargaði á línu eftir góða sókn Bjarnarins. Þetta var í raun eina alvöru færi liðanna í fyrri hálfleik.

Þegar leið á síðari hálfleik dró nokkuð af liðunum og við það opnaðist leikurinn. Á 54. mínútu átti Gunnar Ragnarsson skot að marki Bjarnarins sem fór í þverslána og niður á marklínuna og tíu mínútum síðar flengdi Hjörvar Sigurðsson knettinum í stöngina á marki Bjarnarins.

Þetta voru bestu færi KFR í leiknum en á lokamínútunum hefðu bæði lið getað potað inn marki eftir darraðardans á markteigum liðanna.

Fyrri greinÚtitónleikarnir færðir til Reykjavíkur
Næsta greinGóð byrjun í Rangánum