Fyrsta stig Hamars – Árborg dregst aftur úr

Tómas Bjartur Björnsson skoraði mark Hamars. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar náði í sitt fyrsta stig í 4. deild karla í sumar þegar liðið fékk Álftanes í heimsókn í gærkvöldi. Á sama tíma tapaði Árborg á útivelli gegn KH.

Leikur Hamars og Álftaness var í járnum allan tímann. Fyrri hálfleikur var markalaus en þegar korter var liðið af seinni hálfleiknum komust gestirnir yfir. Hamar leitaði að jöfnunarmarkinu í lokin og þremur mínútum fyrir leikslok jafnaði Tómas Bjartur Björnsson metin. Lokatölur 1-1 og Hamarsmenn loks komnir á blað í deildinni.

Árborg gefur eftir í toppbaráttunni en liðið tapaði 3-2 gegn toppliði KH. Kristinn Sölvi Sigurgeirsson kom Árborg yfir um miðjan fyrri hálfleikinn og staðan var 0-1 í leikhléi.  Hlíðarendapiltar voru sterkari í seinni hálfleiknum. Þeir jöfnuðu metin á 58. mínútu og skömmu síðar fengu þeir vítaspyrnu og komust þá í 2-1. Þriðja mark KH leit dagsins ljós á 81. mínútu en Andrés Karl Guðjónsson náði að klóra í bakkann fyrir Árborg á lokamínútu leiksins.

Með sigrinum styrkti KH stöðu sína verulega á toppnum. KH er með 19 stig, Árborg í 3. sæti með 11 stig og Hamar í botnsætinu með 1 stig.

Fyrri greinKomið að skuldadögum
Næsta greinAð para saman sokka fær mig til að missa lífsviljann