Fyrsta rallkeppni ársins hefst í kvöld

Um helgina verður fyrsta umferð Íslandsmeistaramótsins í rallý ekin á Reykjanesi. Akstursíþróttafélag Suðurnesja heldur keppnina en ekið verður með svipuðu sniði og undanfarin ár.

Fyrsta áhöfn mun leggja af stað klukkan 18:00 frá húsi Aðalskoðunar í Keflavík og verða eknar sérleiðir í nágrenni Reykjanesbæjar. Má þar nefna m.a. sérleið um höfnina í Keflavík, en sú leið hefur ávallt verið vinsæl hjá áhorfendum en mörg skemmtileg atvik hafa sést þar á undanförnum árum.

Keppendur taka síðan næturhlé en mæta eldhressir til leiks snemma á laugardagsmorguninn. Þá verða eknar þrjár ferðir um Djúpavatn, er það er rúmlega 20 km. löng leið en oft ráðast úrslit keppninnar á þessari leið.

Keppninni lýkur síðan um klukkan 15:00 við hús Aðalskoðunar þar sem úrslit verða kynnt og verðlaunaafhending fer fram.

Íslandsmeistararnir 2014, þeir Tímon félagar Baldur og Aðalsteinn, mæta galvaskir á sömu bifreið og í fyrra, Subaru Imprezu Sti. Þeir óku mjög vel síðasta sumar og fóru í gegnum keppnistímabilið án áfalla, því hefur keppnisbifreið þeirra eingöngu þurft góða yfirferð og nýja túrbínu í vetur. Kapparnir munu ræsa fyrstir í keppninni en hefð er fyrir því að ríkjandi Íslandsmeistarar hefji sumrið fyrstir í rásröð og fái því sjálfkrafa keppnisnúmerið 1.

Ljóst er að samkeppnin verður hörð og spennandi en til leiks eru m.a. skráðir fjórir fyrrum Íslandsmeistarar, meðal annars systkinin Daníel Sigurðsson og Ástu Sigurðardóttur.

Fulltrúar Suðurlands í keppninni eru þeir Þór Líni Sævarsson og Sigurjón Þór Þrastarson sem aka öflugum Subaru Impreza bíl. Líni og Sigurjón hafa gert talsverðar breytingar á bílnum frá því í fyrra og eru líklegir til afreka í keppninni um helgina.

Fyrri greinRottuvellir rifnir í dag
Næsta greinLeitað að ökumanni og vitnum