Fyrrum stjarna úr enska boltanum til reynslu á Selfossi

Selfyssingar halda áfram að bæta við sig leikmönnum fyrir komandi tímabil í Pepsi-deild karla í knattspyrnu. Heimildir sunnlenska.is herma að enginn annar en markamaskínan Robbie Fowler hafi komið til landsins í gær og verði til reynslu hjá liðinu næstu daga.

Selfyssingum hefur ekki gengið nógu vel fyrir framan markið í undanförnum leikjum. Þá hafa lykilmenn verið meiddir og óvíst hvort þeir verði klárir þegar tímabilið hefst. Þess vegna hafa forráðamenn Selfoss verið að leita að framherja undanfarin misseri.

Heimildir sunnlenska.is segja að leikmaðurinn sem um ræðir sé enginn annar en Robbie Fowler, fyrrum leikmaður Liverpool og fleiri liða í ensku úrvalsdeildinni. Fowler hefur verið að leita að félagi eftir að samningur hans við tælenska liðið Muangthong United rann út á síðasta ári. Síðan þá hefur hann t.a.m. verið á reynslu hjá liðum í ensku Championship deildinni án þess að fá samning.

Aðilar á Selfossi sem ekki tengjast liðinu beint höfðu samband við kappann og kemur hann hingað til reynslu á þeirra kostnað. Lítur Fowler á þetta sem möguleika á að koma sér í form og ná sér á strik fyrir deildirnar sem hefjast í Evrópu næsta haust.

Fowler verður hér í nokkra daga og mun æfa með liðinu sem og spila einn æfingaleik. Fyrsta æfingu hans verður á Selfossvelli í dag, sunnudag, kl. 16.

Fyrri greinRóleg nótt hjá lögreglu
Næsta greinSara og Díva sterkastar allra