Fyrrum leikmaður Selfoss með sigurmarkið

Selfoss tapaði með einu marki gegn engu þegar liðið mætti Leikni R. í 2. umferð Lengjubikars karla í knattspyrnu í Egilshöllinni í kvöld.

Fyrri hálfleikur var markalaus en Leiknismenn skoruðu eina mark leiksins á 60. mínútu. Það gerði fyrrum leikmaður Selfoss, Bjarki Aðalsteinsson, með skalla. Bjarki lék með Selfyssingum 2013-2014.

Selfoss er með eitt stig í riðli-2 en liðið gerði jafntefli við KR í 1. umferðinni. Næsti leikur liðsins er mánudaginn 6. mars kl. 18:00 á JÁVERK-vellinum, þegar ÍBV kemur í heimsókn.