„Fyrri hálfleikur var frábær“

Selfoss átti ekki í neinum vandræðum með að landa sigri gegn Gróttu á heimavelli í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. 38-24 sigur Selfoss staðreynd.

„Þetta var bara fínn leik­ur en ekk­ert meira en það,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss eftir leik. „Fyrri hálfleik­ur var frá­bær, við stjórnuðum leikn­um og auðvitað vissi maður að það gæti komið smá los­ara­brag­ur á seinni hálfleik­inn sem og gerðist. En á rétt­um tíma­punkt­um í leikn­um þá gerðum við þetta vel.“

Grunnurinn að sigrinum var lagður í fyrri hálfleik sem var frábær hjá Selfyssingum. Tölurnar ljúga engu um það enda var staðan 21-11 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var í öruggum höndum Selfossliðsins þó að mistökin hafi verið mörg og losarabragurinn mikill á köflum. Gróttumenn gerðu einfaldlega miklu fleiri mistök.

Selfoss hefur nú 28 stig í 3. sæti, jafnmörg stig og ÍBV sem er í 2. sæti en liðin mætast í Vestmannaeyjum á miðvikudagskvöld.

Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga með 10 mörk, Elvar Örn Jónsson skoraði 6, Richard Sæþór Sigurðsson og Árni Steinn Steinþórsson 5, Teitur Örn Einarsson 4, Guðjón Baldur Ómarsson 3, Tryggvi Þórisson og Sverrir Pálsson 2 og Haukur Páll Hallgrímsson 1.

Sölvi Ólafsson átti mjög góðan leik í marki Selfoss og varði 17/1 skot.

Fyrri grein„Stelpurnar voru stórkostlegar í kvöld“
Næsta greinSkóga­safn leit­ar að for­stöðumanni