„Fyrri hálfleikur var algjör skandall“

Selfoss tapaði 21-25 þegar Valur kom í heimsókn í Vallaskóla í Olís-deild kvenna í handbolta í kvöld. Leikurinn var vægast sagt kaflaskiptur.

„Fyrri hálfleikur var algjör skandall og varð okkur að falli í kvöld. Við vorum staðar í sókninni, gátum ekki gefið boltann og ekki brotið eitt fríkast í vörninni,“ sagði Hilmar Guðlaugsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik. En hann var ánægður með seinni hálfleikinn.

„Við sýndum frábæran karakter að gera þetta að leik aftur en margir hefðu sagt að þetta væri búið. Við vorum í bullandi séns að jafna og stelpurnar sýndu að það er eitthvað í þær spunnið. En við vorum ekki til staðar í fyrri hálfleik og þú verður að spila vel í sextíu mínútur en ekki bara þrjátíu,“ sagði Hilmar ennfremur.

Selfossliðið náði sér engan veginn á strik í fyrri hálfleik og þegar leið á hann náðu Valskonur sjö marka forskoti. Staðan var 10-17 í hálfleik og eini ljósi punkturinn hjá Selfyssingum var frammistaða Katrínar Magnúsdóttur í markinu. Hún kom inná þegar tíu mínútur voru liðnar og varði 7/1 skot í fyrri hálfleik.

Valur náði átta marka forskoti í upphafi síðari hálfleiks sem var mjög lengi í gang en liðin skoruðu sitthvort markið á fyrstu átta mínútunum. Þá tóku Selfyssingar við sér, Katrín hélt áfram að verja og Adina Ghido­arca og Car­men Palam­ariu fóru að láta finna fyrir sér í sókninni. Vörnin small á sama tíma en Valur skoraði aðeins fimm mörk á rúmum 27 mínútum í seinni hálfleik.

Selfoss minnkaði muninn í eitt mark þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir, 21-22, en nær komust heimakonur ekki og Valur skoraði síðustu þrjú mörk leiksins.

Adina Ghido­arca skoraði 6/​1 mörk fyrir Selfoss og Car­men Palam­ariu 6/​4. Perla Ruth Al­berts­dótt­ir skoraði 3 mörk, Hrafn­hild­ur Hanna Þrast­ar­dótt­ir 3/​2 og þær Hulda Dís Þrast­ar­dótt­ir, Elena Birg­is­dótt­ir og Hild­ur Öder Ein­ars­dótt­ir skoruðu all­ar 1 mark.

Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 17/1 skot í marki Selfoss en hún kom inná þegar tíu mínútur voru liðnar af leiknum og átti oft á tíðum frábærar vörslur. Áslaug Ýr Bragadóttir varði tvö skot í upphafi leiks.

Fyrri greinAðventuhátíð fyrir fjölskylduna
Næsta greinLeki kom að Dísu