Hestamannafélagið Sleipnir á Selfossi fékk endurnýjun viðurkenningar félagsins sem Fyrirmyndarfélag ÍSÍ á nefnda- og sjálfboðaliðakvöldi félagsins í félagsheimilinu Hliðskjálf síðastliðinn miðvikudag.
Það var Hafsteinn Pálsson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ sem afhenti Berglindi Sveinsdóttur formanni félagsins viðurkenninguna að viðstöddu fjölmenni á þessari vel heppnuðu samkomu félagsins.
„Það er okkur hjá Hestamannafélaginu Sleipni mikill heiður að hljóta endurnýjun á viðurkenningu ÍSÍ sem Fyrirmyndarfélag. Hún staðfestir að við leggjum metnað í öflugt og fjölbreytt félagsstarf með góða umgjörð að leiðarljósi og jákvæð gildi. Endurnýjunin er okkur hvatning til að halda áfram að bæta starfsemina og vera góð fyrirmynd innan hreyfingarinnar,“ sagði Berglind formaður af þessu tilefni.
Öllum þeim sjálfboðaliðum sem unnið hafa fyrir Sleipni á árinu var boðið til samkomunnar. Kvöldið var hið skemmtilegasta þar sem boðið var upp á smáréttahlaðborð frá Kjötbúrinu, skemmtiatriði og Pub-Quiz sem Hjörvar Ágústsson stjórnaði.



