Fyrirliðinn hættur hjá Hamri

Halldór Gunnar Jónsson, fyrirliði 1. deildarliðs Hamars í körfubolta, er hættur hjá félaginu. Halldór tilkynnti þetta á Instagram síðu sinni í morgun og sagði ákvörðunina erfiða, en rétta.

Í samtali við sunnlenska.is sagði Halldór ástæðuna persónulega en ekkert væri ákveðið með það hvort hann færi í annað lið.

„Ég hef spilað minn síðasta leik fyrir Hamar og óska strákunum góðs gengis í þeirri baráttu sem framundan er hjá þeim. Ég átti nokkur skemmtileg tímabil í Frystikistunni en einhvertíman tekur allt enda,“ segir Halldór.

Halldór er með fína tölfræði í vetur hjá Hamri en hann hefur gert 8 stig, tekið 2,2 fráköst og sent 1,5 stoðsendingar í tólf leikjum.