Fyrirhafnarlítill bikarsigur Selfoss

Kvennalið Selfoss er komið í 8-liða úrslit Borgunarbikarsins í knattspyrnu eftir auðveldan 5-1 sigur á 1. deildarliði Völsungs á JÁVERK-vellinum á Selfossi í dag.

Selfoss stjórnaði leiknum frá upphafi til enda og þurfti ekki að hafa mikið fyrir sigrinum. Fyrsta markið kom á 18. mínútu eftir einfalt spil og fyrirgjöf Guðmundu Óladóttur. Boltinn barst á Katrínu Rúnarsdóttur sem skaut að marki en Anna Guðrún Sveinsdóttir, markvörður Völsungs, varði boltann í stöngina og inn.

Fimm mínútum síðar jöfnuðu Völsungar með glæsilegasta marki leiksins. Selfyssingar voru sofandi á miðsvæðinu og Hafrún Olgeirsdóttir náði góðu skoti af löngu færi upp í samskeytin. Óverjandi fyrir Chante Sandiford í marki Selfoss.

Þetta var eina markskot Völsunga í fyrri hálfleik og Selfyssingar héldu áfram að sækja. Á 31. mínútu svaraði Donna-Kay Henry með góðu marki þegar hún fékk boltann frá Guðmundu á vítateigslínunni og lét vaða í netið. 2-1. Á 44. mínútu tók Anna Guðrún stutt útspark frá marki Völsungs, boltinn fór beint á Dagnýju Brynjarsdóttur sem óð vinstra megin inn í vítateiginn og lagði boltann snyrtilega í fjærhornið. 3-1 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var mjög rólegur, lítil hreyfing á leikmönnum og lítið í gangi framávið hjá Selfyssingum. Þegar þrjátíu mínútur voru eftir af leiknum skiptu Selfyssingar yfir í 3-5-2 og gekk sú breyting ágætlega. Tvívegis opnaðist þó Selfossvörnin og Sandiford varði meðal annars mjög vel þegar Berglind Kristjánsdóttir slapp innfyrir Selfossvörnina.

Á 66. mínútu tók Guðmunda af skarið og lék inn í vítateig þar sem brotið var á henni. Dómarinn gat ekki dæmt annað en vítaspyrnu og Guðmunda fór sjálf á punktinn og skoraði. Magdalena Reimus innsiglaði svo 5-1 sigur Selfoss á 77. mínútu. Hrafnhildur Hauksdóttir tók hornspyrnu sem Völsungar skölluðu frá á línu en boltinn barst út í markteiginn þar sem Magdalena stangaði hann örugglega í netið.

Selfyssingar verða því í pottinum þegar dregið verður í 8-liða úrslitin á mánudaginn. Mögulegir andstæðingar þar eru Fylkir, Grindavík, ÍBV, KR, Stjarnan, Valur og Þór/KA.

Fyrri greinKoddaslagur og kassaklifur á Stokkseyri
Næsta greinÞorkell jafnaði í lokin