Fylkir-Selfoss 5-2

Selfyssingar voru niðurlægðir í Árbænum í kvöld þegar liðið tapaði 5-2 fyrir Fylki í Pepsi-deild karla.

Byrjunarlið Selfoss var nánast óbreytt frá liðinu sem gerði jafntefli við Grindavík fyrir tæpum tveimur vikum. Andri Freyr Björnsson kom inn í liðið í stað Ingólfs Þórarinssonar. Sigurður Eyberg Guðlaugsson, Jón Steindór Sveinsson og Viðar Kjartansson eru allir meiddir og á bekknum í kvöld voru tveir ungir piltar í fyrsta sinn í sumar, Ingvi Rafn Óskarsson og Óskar Guðjónsson.

Selfyssingar byrjuðu betur í leiknum og fengu nokkur dauðafæri á fyrstu tuttugu mínútunum. Sævar Þór og Davíð Birgisson komust báðir í ákjósanleg færi sem öll fóru forgörðum. Fylkismenn áttu líka sínar sóknir en Jóhann Ólafur varði vel í tvígang í marki Selfoss.

Fylkir komst yfir á 24. mínútu þegar Pape Mamadou Faye skallaði boltann í netið, óvaldaður á markteig eftir hornspyrnu. Fátt markvert gerðist eftir það en Sævar Þór fékk ákjósanleg skallafæri á lokamínútu hálfleiksins en boltinn var órafjarri markinu.

Selfyssingar mættu ekki til leiks fyrr en góður hálftími var liðinn af síðari hálfleik. Í millitíðinni skoruðu Fylkismenn fjögur mörk á fimmtán mínútna kafla en vörn Selfoss var algjörlega úti á þekju í seinni hálfleik. Í stöðunni 5-0 voru Fylkismenn orðnir saddir og Selfoss uppskar tvö mörk í lokin. Arilíus Marteinsson skoraði á 76. mínútu af stuttu færi úr teignum eftir aukaspyrnu og á 87. mínútu hjálpuðust Arilíus og Kjartan Sigurðsson við að pota boltanum yfir marklínuna eftir klafs í teig Fylkis.

Lokatölur 5-2 og síðari hálfleikurinn án efa versta frammistaða Selfyssinga í sumar.

Byrjunarlið Selfoss: Jóhann Ólafur Sigurðsson, Andri Freyr Björnsson, Kjartan Sigurðsson, Agnar Bragi Magnússon, Guðmundur Þórarinsson, Davíð Birgisson (Ingþór Jóhann Guðmundsson +66), Jón Guðbrandsson, Einar Ottó Antonsson (Ingólfur Þórarinsson +66), Stefán Ragnar Guðlaugsson, Jón Daði Böðvarsson, Sævar Þór Gíslason (Arilíus Marteinsson +66).