Stjórnarfólk íþróttahéraða á Suðurlandi og framkvæmdastjóri Héraðssambandsins Skarphéðins fundaði í fyrsta sinn öll saman í síðustu viku. Markmiðið með fundinum var að byggja brú á milli sambandanna.
Rakel Magnúsdóttir, annar tveggja svæðisfulltrúa íþróttahreyfingarinnar á Suðurlandi, segir í frétt á síðu UMFÍ að ferðin hafi heppnast frábærlega. „Þetta var fyrsti samráðsfundur íþróttahéraða á okkar svæði og alveg frábærlega vel heppnuð Eyjaferð. Tilgangurinn var að byggja brýr á milli hèraða og fèlaga og mynda dýrmæt tengsl. Það tókst,“ segir Rakel.
Svæðisfulltrúunum um allt land var í fyrra falið að vinna áfram með hugmynd um nýtingu fjármagns og kom upp sú hugmynd að formenn og stjórnir íþróttahéraða myndu funda saman. Fyrirhugað var í fyrra að formenn á Suðurlandi heimsæktu fulltrúa Íþróttabandalags Vestmannaeyja á síðasta ári en ferðinni var frestað vegna veðurs.
Rakel segir markmið ferðarinnar hafa öðru fremur falist í því að hittast og ræða saman um störf stjórna íþróttahéraðanna, gefa og þiggja ráð og búa til dýrmæt tengsl. Dagskráin var afslöppuð og óformleg en fyrirhuguð nýting á sameiginlegu fjármagni sem ætluð er inn í hreyfinguna var í brennidepli.
„Við fengum útsýnisferð og kynningu frá ÍBV og skoðuðum meðal annars Gullberg, sem er glæsileg lyftingaaðstaða í Týsheimilinu í Eyjum, Glófaxa, sem er nýja félagsaðstaða fyrir yngri iðkendur, en þar fá þau tækifæri á að nýta frítíma sinn í kringum æfingar og glæsilega búningsaðstöðu og nýjan gervigrasvöll á Hásteinsvelli. Þá fengum við einnig sýnisferð um golfvöllinn og glæsilegt klúbbhúsið sem hefur flottan golfhermi, sem bæði ungir sem aldnir nýta allan ársins hring,“ heldur Rakel áfram.
Ferðinni lauk með sameiginlegum kvöldverði á Einsa Kalda þannig að enginn fór svangur heim. Rakel segir ferðina hafa heppnast vel í alla staði enda hafi samtalið opnað á frekari samskipti milli stjórnarmanna í framtíðinni. Næsti hittingur verður á sambandsþingi UMFÍ í október en það er fyrsta UMFÍ þing sem ÍBV sækir eftir að sambandið varð aðili að UMFÍ fyrr á árinu.


