Fullkomin þrenna hjá Inga Rafni

Ingi Rafn Ingibergsson skoraði þrennu í kvöld fyrir Ægi, sem varð fyrsta liðið til að leggja Berserki að velli í 3. deild karla í knattspyrnu í sumar.

Leikurinn var kaflaskiptur. Berserkir komust í 1-0 á 13. mínútu en Ingi Rafn jafnaði þremur mínútum síðar og staðan var 1-1 í hálfleik.

Ingi Rafn kom síðan Ægi yfir þegar rúmar fimmtán mínútur voru liðnar af seinni hálfleik en Berserkir jöfnuðu átta mínútum síðar, 2-2. Á 81. mínútu skoraði Ingi Rafn síðan sigurmark Ægis eftir vel útfærða hornspyrnu með góðu skoti utan úr vítateignum í fjærhornið.

Þar með kórónaði Stokkseyringurinn fullkomna þrennu en hann skoraði mörkin með vinstri fæti, hægri fæti og skalla.

Þetta var fyrsti sigur Ægis í sumar en liðið er með fjögur stig í 4. sæti riðilsins.

Fyrri greinÁrborg skoraði sex mörk
Næsta greinFjölbreytt dagskrá í Þorlákshöfn