„Fullkomið tækifæri fyrir mig“

Annie Mist og Bergrós eftir sigurinn á RIG í dag. Ljósmynd/Berglind Hafsteinsdóttir

Selfyssingurinn Bergrós Björnsdóttir og Crossfitgoðsögnin Annie Mist Þórisdóttir sigruðu í kvennaflokki í parakeppni í Crossfit á Reykjavíkurleikunum í dag.

Bergrós og Annie Mist stóðu efstar eftir undankeppni um síðustu helgi, þar sem þrjú efstu liðin komust í lokakeppni RIG sem haldin var í Crossfit Reykjavík í dag.

Sigurganga Bergrósar og Annie hélt áfram í dag því þær sigruðu örugglega í öllum þremur keppnisgreinunum dagsins og tryggðu sér þannig 1. sætið sannfærandi.

Bergrós er 15 ára gömul og var þarna að keppa í fullorðinsflokki við hlið einnar stærstu stjörnu Crossfitheimsins en þess má geta að þegar Annie Mist sigraði í fyrsta skipti á heimsleikunum árið 2011 var Bergrós aðeins 4 ára gömul.

„Þetta var geggjað tækifæri sem ég fékk að fá að keppa með Annie og öll reynslan sem ég fæ út úr því. Ég er ekki búin að keppa mikið þannig að þetta var fullkomið tækifæri fyrir mig,“ sagði Bergrós í viðtali við Ríkissjónvarpið eftir mótið.

Annie Mist og Bergrós efstar á palli í dag. Ljósmynd/Berglind Hafsteinsdóttir
Það var vel tekið á því í dag. Ljósmynd/Berglind Hafsteinsdóttir
Fyrri greinÞórsarar upp úr fallsæti
Næsta greinAppelsínugul viðvörun: Ekkert ferðaveður og hætta á foktjóni