FSu vann en Hamar tapaði

FSu vann góðan sigur á Vestra, 78-68, í 1. deild karla í körfubolta í kvöld á meðan Hamar tapaði fyrir Hetti, 60-87.

Fyrri hálfleikur var jafn hjá Hamri og Hetti þar sem liðin mættust í Frystikistunni í Hveragerði. Staðan var 35-37 í leikhléi. Hattarmenn gerðu hins vegar út um leikinn í 3. leikhluta en staðan að honum loknum var 48-66. Forskot gestanna jókst svo enn frekar í síðasta fjórðungnum. Lokatölur 60-87.

Örn Sigurðarson var stigahæstur hjá Hamri með 20 stig, Christopher Woods skoraði 15 og tók 13 fráköst og Snorri Þorvaldsson skoraði 10 stig.

Í Iðu sendu heimamenn ekki út neinar upplýsingar á netið um gang mála á meðan á leik stóð, þannig að ekki hafa borist tíðindi af gangi leiksins eða tölfræði leikmanna. FSu er með 4 stig í efri hluta deildarinnar að loknum þremur umferðum. Hamar er með tvö stig og hefur leikið einum leik meira.