FSu tyllti sér í toppsætið

Lið FSu tyllti sér í toppsæti 1. deildar karla í körfubolta í kvöld með gríðarsterkum sigri á ÍA á útivelli, 77-88.

Lítill munur var á liðunum í 1. leikhluta, FSu komst í 5-11 en ÍA jafnaði 24-24 og komst í kjölfarið yfir í upphafi 2. leikhluta, 32-27. Liðin skiptust síðan á um að hafa forystuna en heimamenn leiddu í hálfleik, 42-41.

Baráttan var hörð í 3. leikhluta, Skaginn leiddi með tveimur stigum, 57-55, þegar rúmar tvær mínútur voru eftir af honum en þó tók Ari Gylfason góða rispu. Hann raðaði niður þristunum og skoraði ellefu síðustu stig FSu í leikhlutanum, 61-66.

ÍA minnkaði muninn niður í tvö stig þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir af síðasta fjórðungnum, 75-77, en gestirnir kláruðu leikinn af öryggi með 2-11 áhlaupi. Maciej Klimaszewski var þar fremstur í flokki en hann skoraði níu stig á lokamínútunum.

Collin Pryor var bestur í liði FSu í kvöld og skoraði 25 stig. Ari og Maciej áttu sömuleiðis mjög fínan leik, Ari skoraði 18 stig og tók 10 fráköst og Maciej skoraði 17 stig og tók 11 fráköst. Hlynur Hreinsson skoraði 13 stig, Erlendur Stefánsson 7, Birkir Víðisson 6 og Svavar Stefánsson 2.

Eftir sigurinn er FSu á toppi deildarinnar með 8 stig eins og Hamar en Hvergerðingar eiga leik til góða.