FSu tryggði sér oddaleik

Lið FSu kom sterkt til baka í Iðu í kvöld í leik tvö í einvíginu gegn Hamri um sæti í úrvalsdeild karla í körfubolta á næsta tímabili. Lokatölur urðu 74-70.

Það var frábær stemmning í Iðu í kvöld í troðfullu húsi, þar sem stuðningsmenn liðanna létu óspart í sér heyra.

Hamar byrjaði betur í leiknum og leiddi að loknum 1. leikhluta, 17-24, en FSu-liðið kom til baka í 2. leikhluta og staðan var hnífjöfn í hálfleik, 40-40.

FSu liðið lék svo frábærlega í 3. leikhluta og lagði þar grunninn að sigrinum. Frábær vörn FSu varð til þess að Hamar skoraði aðeins átta stig í leikhlutanum og staðan að honum loknum var 58-48.

Hvergerðingar hófu síðasta fjórðunginn hins vegar á 2-12 áhlaupi og komu sér þar með aftur inn í leikinn. Fjórði leikhluti var æsispennandi og þegar 33 sekúndur voru eftir af leiknum var munurinn aðeins þrjú stig, 69-66, og Hamar með boltann. Hvergerðingar misstu hins vegar boltann strax þegar Hlynur Hreinsson stal boltanum af Lárusi Jónssyni. FSu kláraði leikinn svo á vítalínunni en á lokamínútunni setti Ari Gylfason niður 8/8 vítaskot.

Ari og Erlendur Stefánsson voru stigahæstir hjá FSu með 16 stig, Hlynur skoraði 12 og Collin Pryor 11, auk þess sem hann tók 17 fráköst. Maciej Klimaszewski skoraði 10 stig og Svavar Stefánsson 9.

Julian Nelson var stigahæstur hjá Hamri með 19 stig og Þorsteinn Gunnlaugsson skoraði 14 stig og tók 15 fráköst. Lárus skoraði 12 stig, Sigurður Orri Hafþórsson 11, Örn Sigurðarson 10 og þeir Kristinn Ólafsson og Snorri Þorvaldsson skoruðu báðir 2 stig.

Það verður því oddaleikur í Frystikistunni í Hveragerði miðvikudagskvöldið 15. apríl næstkomandi kl. 19:15. Liðið sem sigrar í þeim leik tryggir sér sæti í úrvalsdeildinni næsta haust.

Fyrri greinSandvíkurtjaldurinn lentur
Næsta greinViðbrögð leikmanna: „Svona á þetta að vera í úrslitakeppninni“