FSu tapaði heima gegn botnliðinu – Þór vann góðan sigur

FSu hefur ekki enn unnið heimaleik í Domino’s-deild karla í körfubolta, en í kvöld tapaði liðið heima gegn botnliði Hattar. Þór Þ. vann Grindavík úti á sama tíma.

Leikur FSu og Hattar var í járnum allan leikinn en undir lok leiks fundu heimamenn ekki leiðina upp að körfu Hattar og gestirnir gengu á lagið. Staðan var 36-39 í hálfleik. Þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum var staðan 77-81 en Höttur náði að auka forskotið á síðustu mínútunum og sigraði 83-92.

Tölfræði FSu: Christopher Woods 22 stig/12 fráköst, Bjarni Geir Gunnarsson 18 stig/4 fráköst, Gunnar Ingi Harðarson 15 stig/6 fráköst, Hlynur Hreinsson 11 stig/7 stoðsendingar, Ari Gylfason 4 stig, Svavar Ingi Stefánsson 3 stig, Geir Helgason 3 stig/4 fráköst, Þórarinn Friðriksson 3 stig, Arnþór Tryggvason 2 stig, Maciej Klimaszewski 2 stig.

Þórsarar heimsóttu Grindvíkinga og unnu góðan sigur í hörkuleik. Heimamenn byrjuðu betur og leiddu 39-31 í hálfleik en Þór vann upp forskotið og gott betur í 3. leikhluta. Staðan var orðin 58-66 í upphafi 4. leikhluta en í kjölfarið náðu Grindvíkingar að minnka muninn niður í eitt stig, 70-71, þegar fimm og hálf mínúta var eftir. Þá gáfu Þórsarar aftur í með Vance Hall fremstan í flokki á vítalínunni.

Tölfræði Þórs: Vance Hall 31 stig/9 fráköst/5 stoðsendingar, Emil Karel Einarsson 19 stig, Ragnar Nathanaelsson 15 stig/12 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 9 stig, Þorsteinn Már Ragnarsson 6 stig/4 fráköst, Grétar Ingi Erlendsson 5 stig, Baldur Þór Ragnarsson 2 stig.

Eftir átján leiki er Þór í 5. sæti deildarinnar með 22 stig en FSu er í 11. sæti með 6 stig og þarf að vinna að minnsta kosti þrjá af fjórum síðustu leikjunum og treysta því að ÍR tapi sínum leikjum á meðan – ætli liðið að halda sæti sínu í deildinni.

Fyrri greinHÍ færir íþróttafræðinámið til Reykjavíkur
Næsta greinEinn handtekinn vegna mansals í Vík