FSu tapaði toppslagnum

FSu tapaði 100-86 þegar liðið heimsótti Hött á Egilsstaði í uppgjöri toppliðanna í 1. deild karla í körfubolta í kvöld.

FSu byrjaði betur í leiknum og leiddi að loknum 1. leikhluta, 20-25. Höttur svaraði fyrir sig í 2. leikhluta og staðan var jöfn í hálfleik, 48-48.

FSu-liðið fann ekki fjölina sína í 3. leikhluta og Höttur náði góðu forskoti, 78-63. Munurinn hélst svipaður út leikinn og FSu tókst ekki að brúa bilið þrátt fyrir ágæta rispu um miðjan 4. leikhluta.

Hattarmenn eru nú komnir í álitlega stöðu í toppsætinu með 22 stig en FSu er ennþá í 2. sæti með 16 stig og á leik til góða.

Ari Gylfason var bestur í liði FSu í kvöld og skoraði 34 stig. Collin Pryor skoraði 20 stig og tók 13 fráköst og Erlendur Stefánsson skoraði 13 stig. Hlynur Hreinsson skoraði 9, Fraser Malcom 4 og þeir Maciej Klimaszewski, Þórarinn Friðriksson og Svavar Ingi Stefánsson skoruðu allir 2 stig.

Fyrri greinBjörgvin hættur sem sveitarstjóri
Næsta greinAndri Freyr semur við færeyskt lið