FSu skellti toppliðinu – Tröllatvenna Woods

FSu vann annan leik sinn í Domino’s-deild karla í körfubolta í kvöld. FSu gerði sér lítið fyrir og skellti toppliði Keflavíkur, 100-110.

Það bjuggust fáir við þessum úrslitum en FSu hafði aðeins unnið einn leik í deildinni í vetur á meðan Keflvíkingar höfðu verið nánast ósnertanlegir í toppsætinu.

Leikurinn var jafn allan tímann og mikið skorað en staðan var 54-60 í hálfleik. FSu náði mest 11 stiga forskoti í 3. leikhluta, 73-84, en Keflvíkingar svöruðu fyrir sig og komust í 89-87 þegar fjórar mínútur voru liðnar af síðasta fjórðungnum.

FSu liðið lék hins vegar á alls oddi á lokamínútum leiksins, svaraði með 12-3 áhlaupi og höfðu nokkuð þægilegt forskot þegar lokamínútan rann upp, 96-102. Cris Caird innsiglaði sigurinn með þriggja stiga körfu þegar hálf mínúta var eftir og engin leið fyrir toppliðið að svara fyrir sig.

Chris Woods átti frábæran leik fyrir FSu og var með sannkallaða tröllatvennu, 36 stig og 30 fráköst. Cris Caird átti sömuleiðis mjög góðan leik og skoraði 27 stig.

Þrátt fyrir sigurinn er FSu enn í 11. sæti deildarinnar, nú með 4 stig, en Keflavík heldur toppsætinu með 14 stig.

Tölfræði FSu: Christopher Woods 36 stig/30 fráköst (57 í framlag), Cristopher Caird 27 stig/7 fráköst/7 stoðsendingar (30 í framlag), Ari Gylfason 18 stig/6 fráköst, Hlynur Hreinsson 15 stig/5 stoðsendingar, Gunnar Ingi Harðarson 10 stig/7 fráköst, Bjarni Geir Gunnarsson 4 stig.

Fyrri greinSelfoss gaf eftir í lokin
Næsta greinEkkert ferðaveður á Suðurlandi – Hellisheiði lokuð