FSu sigraði í framlengingu

FSu vann góðan sigur á ÍA í spennandi leik í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur á Akranesi voru 113-114.

FSu byrjaði betur í leiknum og leiddi að loknum 1. leikhluta, 23-31. Skagamenn söxuðu á forskotið í 2. leikhluta en Selfyssingar höfðu enn forystu þegar komið var að hálfleik, 41-46.

ÍA sneri leiknum sér í vil strax í upphafi 3. leikhluta, 55-50, en FSu svaraði með 3-21 áhlaupi þar sem Ari Gylfason setti meðal annars niður fjögur þriggja stiga skot. Staðan var 69-76 að 3. leikhluta loknum.

Taugarnar voru þandar í síðasta fjórðungnum þar sem Skagamenn komust fljótlega fimm stigum yfir, 86-81. Selfyssingar átu forskotið smátt og smátt upp og voru komir þremur stigum yfir þegar tæpar tvær mínútur voru eftir. Skagamenn jöfnuðu 99-99 þegar 33 sekúndur voru eftir en Erlendur Stefánsson setti niður tvö víti og kom FSu í 99-101 þegar þrjár sekúndur lifðu leiks. Þær sekúndur dugðu ÍA til að jafna, 101-101. Framlenging.

Framlengingin var æsispennandi en FSu leiddi 105-112 þegar tæpar tvær mínútur voru eftir og Selfyssingar héldu sjó á lokasekúndunum þrátt fyrir að Skagamenn þjörmuðu vel að þeim. Einu stigi munaði í lokin, 113-114.

Ari Gylfason var stigahæstur hjá FSu með 32 stig, Hlynur Hreinsson og Erlendur Ágúst Stefánsson skoruðu 18, Arnþór Tryggvason og Collin Anthony Pryor 17, Birkir Víðisson 9 og Geir Helgason 3. Pryor tók 14 fráköst og Arnþór 10.

FSu er í 7. sæti deildarinnar með 16 stig þegar ein umferð er eftir.

Fyrri greinBáran samþykkti samninginn
Næsta greinSannfærandi sigur Þórsara