FSu sigraði en Hamar tapaði

Gengi sunnlensku liðanna í 1. deild karla í körfubolta var misjafnt í kvöld. FSu vann góðan sigur á Breiðabliki á meðan Hamar tapaði á útivelli gegn Hetti.

FSu sótti Blika heim í Kópavog og leiddu Selfyssingar eftir 1. leikhluta, 19-23. Blikar sneru leiknum sér í vil í 2. leikhluta en FSu hélt naumu forskoti í hálfleik, 47-48. Í 3. leikhluta réðu Blikar lögum og lofum og náðu mest níu stiga forskoti í upphafi 4. leikhluta en FSu liðið svaraði með feiknalegu áhlaupi í síðasta fjórðungnum. Þar skoruðu Selfyssingar 24 stig gegn 9 stigum Blika og tryggðu sér góðan útisigur.

Collin Pryor var stigahæstur hjá FSu með 27 stig og 13 fráköst. Ari Gylfason skoraði 22, Svavar Ingi Stefánsson 11, Daði Berg Grétarsson 10, Erlendur Ágúst Stefánsson 9 og þeir Hlynur Hreinsson og Arnþór Tryggvason skoruðu tvö stig hvor.

Hamarsmenn voru í heimsókn á Egilsstöðum þar sem heimamenn gengu nánast frá leiknum í einum leikhluta. Leikurinn var jafn allan tímann en Höttur lauk 2. leikhluta með 19-3 áhlaupi og það dugði þeim til sigurs. Staðan var 45-30 í hálfleik og síðari hálfleikur var í járnum og munurinn hélst nánast sá sami út leikinn en Höttur náði þó mest 22 stiga forskoti í upphafi 4. leikhluta. Lokatölur urðu 97-81.

Danero Thomas var stigahæstur hjá Hamri með 22 stig og 11 fráköst. Bragi Bjarnason skoraði 19 stig, Aron Freyr Eyjólfsson 14, Halldór Gunnar Jónsson 12, Stefán Halldórsson 7, Bjartmar Halldórsson 4 og Ingvi Guðmundsson 3.

FSu er í 4. sæti deildarinnar með 4 stig en Hamar er í 8. sæti með 2 stig.

Fyrri greinÞorlákur fékk viðurkenningu á degi gegn einelti
Næsta greinArna Ír og Eggert: Gamaldags vinnubrögð við gerð fjárhagsáætlunar