FSu og Hamar sigruðu

FSu og Hamar unnu góða sigra í 9. umferð 1. deildar karla í körfubolta. FSu vann útisigur á Val en Hamar lagði Breiðablik heima.

Það blés ekki byrlega í upphafi hjá FSu því Valur leiddi 32-21 að loknum 1. leikhluta. FSu svaraði með góðum kafla í 2. leikhluta og staðan var 51-49 í hálfleik. FSu var svo sterkari aðilinn í síðari hálfleik og lauk honum á sannfærandi hátt, lokatölur 84-95.

Collin Pryor skoraði 28 stig og tók 13 fráköst fyrir FSu, Ari Gylfason skoraði 24 stig, Erlendur Stefánsson 11, Maciej Klimaszewski 10, Birkir Víðisson 8, Geir Helgason 6, Svavar Ingi Stefánsson 5 og Hlynur Hreinsson 3.

Öllu tæpari var sigur Hamars á Breiðabliki í Frystikistunni í Hveragerði í gærkvöldi. Lokatölur urðu 93-92 eftir fjörugan leik. Hamar leiddi með fimm stigum í hálfleik, 52-47. Hamar lenti undir í seinni hálfleik en gerðu gott áhlaup í 4. leikhluta og kreistu fram sigur í blálokin.

Örn Sigurðarson og Julian Nelson voru atkvæðamestir Hamarsmanna en tölfræði leiksins hefur ekki enn ratað í hendur sunnlenska.is.

Hamar og FSu eru áfram í 2.-3. sæti deildarinnar með 14 stig en liðin eiga til góða innbyrðis viðureign á Hött sem er í toppsætinu með 16 stig.

Fyrri greinÞór fékk 127 stig á sig
Næsta greinSjúkraflutningamenn verða kvikmyndastjörnur