FSu og Gnúpverjar töpuðu

FSu og Gnúpverjar töpuðu leikjum sínum í 1. deild karla í körfubolta í gærkvöldi. FSu fékk Fjölni í heimsókn og Gnúpverjar tóku á móti Skallagrími.

Á Selfossi byrjaði FSu betur og leiddi 29-22 að loknum 1. leikhluta. Fjölnismenn minnkuðu muninn í 2. leikhluta og staðan var 41-40 í hálfleik. Þriðji leikhluti var í járnum og staðan jöfn að honum loknum en á lokasprettinum höfðu Fjölnismenn betur, þó að bæði lið hafi verið að skora lítið. Lokatölur urðu 75-79.

Jett Speelman var stigahæstur hjá FSu með 25 stig, Ari Gylfason skoraði 20, Florijan Jovanov 12 og Hilmir Ómarsson 11.

Gnúpverjum hefur gengið vel í síðustu tveimur leikjum en þeir áttu á brattann að sækja í gærkvöldi. Skallagrímur valtaði yfir fyrsta leikhlutann og leiddi 20-40 að honum loknum. Staðan var orðin 42-67 í leikhléi. Gnúpverjar náðu að svara fyrir sig í síðari hálfleiknum en munurinn var orðinn of mikill til þess að þeir næðu að vinna hann upp. Lokatölur urðu 96-110.

Everage Richardson var stigahæstur hjá Gnúpverjum með 36 stig og Þórir Sigvaldason skoraði 23.

Gnúpverjar eru í 7. sæti deildarinnar með 4 stig en FSu er án stiga í 8 sætinu. Í 6. sæti sitja Hamarsmenn með 4 stig og þeir eiga leik í kvöld gegn Vestra á útivelli.

Fyrri grein„Selfoss area – stay closer to nature“
Næsta grein„Fólk setti hjarta sitt á borðið“