FSu og Þór í pottinum á morgun

FSu og Þór Þorlákshöfn verða einu sunnlensku liðin í pottinum þegar dregið verður í 16-liða úrslit Maltbikars karla í körfubolta á morgun. Hamar, Hrunamenn/Laugdælir og Gnúpverjar eru úr leik.

FSu, sem leikur í 1. deildinni, vann til þess að gera nauman sigur á 3. deildarliði Grundarfjarðar á útivelli í 32-liða úrslitunum. Staðan í hálfleik var 31-37 en FSu vann að lokum þrettán stiga sigur, 56-69. Terrence Motley skoraði 12 stig fyrir FSu en Jón Jökull Þráinsson og Orri Jónsson 12.

Hamar tók á móti Hetti frá Egilsstöðum í kvöld en bæði lið leika í 1. deildinni. Staðan var 48-54, Hetti í vil í hálfleik og lokatölurnar 84-91. Christopher Woods skoraði 23 stig fyrir Hamar, Smári Hrafnsson 12, Örn Sigurðsson 12, Rúnar Erlingsson 11 og Oddur Ólafsson 10.

Hrunamenn/Laugdælir, sem leika í 2. deild, fengu úrvalsdeildarlið Þórs frá Akureyri í heimsókn á Flúðir. Gestirnir leiddu 26-47 í hálfleik og sigruðu að lokum 68-96. Florijan Jovanov skoraði 23 stig fyrir H/L og Russel Johnson 17.

Gnúpverjar, sem einnig leika í 2. deildinni, töpuðu stórt þegar þeir mættu Íslandsmeisturum KR í Frostaskjólinu, 111-53. Staðan í hálfleik var 54-22. Tómas Steindórsson var stigahæstur Gnúpverja með 18 stig og Þórir Sigvaldason skoraði 9.

Þór Þorlákshöfn sat hjá í 32-liða úrslitunum.