FSu í kröppum dansi gegn botnliðinu

FSu lenti í vandræðum með botnlið Augnabliks í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Undir lokin náðu Selfyssingar að knýja fram 85-94 sigur.

Selfyssingar voru ekki vakandi í upphafi leiks og Augnablik tók forystuna og leiddi allan 1. leikhluta. Staðan var 27-23 að loknum fyrsta fjórðungi en FSu komst yfir í upphafi 2. leikhluta, 31-32, og næstu mínútur voru hnífjafnar. Staðan í hálfleik var 44-44.

FSu leiddi 50-54 þegar rúmar fjórar mínútur voru liðnar af seinni hálfleik en þá skoruðu heimamenn ellefu stig í röð og komust í 61-54. FSu svaraði þá með tíu stigum í röð og staðan var 61-64 þegar síðasti fjórðungurinn hófst.

Barningurinn hélt áfram í upphafi 4. leikhluta, Augnablik leiddi 69-68 þegar átta mínútur voru eftir en þá girtu gestirnir sig loksins í brók, komust yfir og héldu forystunni til leiksloka.

Collin Pryor bar höfuð og herðar yfir aðra leikmenn vallarins í kvöld með 32 stig, 17 fráköst, 5 stoðsendingar og 3 varin skot. Erlendur Ágúst Stefánsson átti sömuleiðis fínan leik með 27 stig, 5 fráköst, 5 stoðsendingar og 3 varin skot. Birkir Víðisson skoraði 13 stig, Svavar Ingi Stefánsson 9, Geir Elías Úlfur Helgason 6, Hlynur Hreinsson 4 og Arnþór Tryggvason 3.

FSu er í 5. sæti deildarinnar með 14 stig.