FSu hafði betur í Suðurlandsslagnum

FSu hafði betur í Suðurlandsslagnum í 1. deild karla í körfubolta í kvöld þegar liðið heimsótti Hamar í Hveragerði. Lokatölur urðu 71-92.

Þarna var aðeins spilað upp á heiðurinn en ljóst var fyrir leikinn að liðin kæmust hvorki ofar eða neðar á töflunni, Hamar í 5. sæti og FSu í því sjöunda. Sterka leikmenn vantaði í bæði lið en Hamar hvíldi meðal annars Christopher Woods fyrir komandi átök í úrslitakeppninni.

FSu átti frábæran 1. leikhluta, komst í 0-10 og leiddi 10-23 um miðjan leikhlutann. Staðan var 15-34 að tíu mínútum liðnum. Annar leikhluti var jafnari en FSu lokaði honum á 5-15 áhlaupi og staðan var 33-55 í hálfleik.

Hamarsmenn mættu mun sprækari inn í seinni hálfleikinn og náðu að minnka muninn í 12 stig í 3. leikhluta, 57-69. FSu hélt hins vegar aftur af Hamri í 4. leikhluta og náði að bæta aftur við forskotið á síðustu fimm mínútum leiksins.

Úrslitakeppni 1. deildarinnar hefst hjá Hamri þann 14. mars en Hamar mætir Fjölni í 4-liða úrslitum. Fyrsti leikurinn er í Grafarvogi kl. 19:15 en leikur tvö í Hveragerði 17. mars kl. 19:15.

Tölfræði Hamars: Erlendur Ágúst Stefánsson 21 stig, Örn Sigurðarson 19 stig/5 fráköst, Björn Ásgeir Ásgeirsson 12 stig, Smári Hrafnsson 8 stig, Oddur Ólafsson 7 stig/9 fráköst, Kristinn Ólafsson 3 stig/6 fráköst, Guðjón Ágúst Guðjónsson 1 stig/5 fráköst, Rúnar Ingi Erlingsson 4 fráköst.

Tölfræði FSu: Terrence Motley 27 stig/10 fráköst/9 stoðsendingar, Ari Gylfason 26 stig/11 fráköst/6 stolnir, Arnþór Tryggvason 12 stig/6 fráköst, Helgi Jónsson 11 stig/8 fráköst/6 stoðsendingar, Svavar Ingi Stefánsson 6 stig, Gísli Gautason 4 stig, Jón Jökull Þráinsson 3 stig, Páll Ingason 3 stig.