FSu gerði góða ferð norður

Lið Körfuknattleiksfélags FSu gerði góða ferð norður í land um síðustu helgi þar sem liðið tók þátt í Greifamóti Þórs á Akureyri.

Auk heimamanna og FSu tóku KFÍ og Höttur þátt í mótinu.

FSu lagði úrvalsdeildarlið KFÍ örugglega að velli í fyrsta leik, 86-61, og sigurgangan hélt áfram gegn Þór, 91-76. Þá tók við hreinn úrslitaleikur um sigur í mótinu gegn Hetti.

FSu byrjaði leikinn betur og leiddi í hálfleik, 33-26. Selfyssingar náðu mest níu stiga forskoti í síðari hálfleik en þegar leið á leikinn fóru menn að hitta illa og Héraðsbúar komust aftur inn í leikinn. Lokatölur urðu 58-55, Hetti í vil, en FSu átti síðustu sókn leiksins sem lauk með galopnu þriggja stiga skoti þar sem boltinn rúllaði á hringnum en fór svo uppúr aftur.

Á heimleiðinni á sunnudeginum tók FSu liðið daginn snemma, ók á Akranes og spilaði æfingaleik gegn ÍA. FSu leiddi allan leikinn og sigraði örugglega 93-71.

Fyrri greinEkið á ljósastaur við Lyngás
Næsta greinBjörgvin og Frederik sigruðu í Malmö