FSu fékk skell – og féll

Lið FSu er fallið úr Domino's-deild karla í körfubolta, þegar tvær umferðir eru eftir af deildinni. Liðið tapaði fyrir Keflavík á heimavelli í kvöld, 73-112.

„Við spiluðum vel í fyrri hálfleik, það munaði fjórtán stigum í leikhléi en við mættum ekki tilbúnir í seinni hálfleikinn. Við vissum að við þyrftum að spila yfir getu til þess að hanga inni í leiknum og það tókst ekki. Við vorum í erfiðri stöðu þegar leið á og þetta endaði í 40 stiga mun,“ sagði Erik Olson, þjálfari FSu, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Við erum með vængbrotið lið og höfum sagt það undanfarið að lokaspretturinn verði tækifæri fyrir yngri leikmenn að öðlast meiri reynslu en þeir hefðu annars fengið. Það átti enginn enginn von á því að við myndum vinna, ég ætlaðist til þess að menn leggðu sig fram og hættu ekki og það er í raun það sem ég er að einbeita mér að núna,“ bætti Olsson við.

„Við vorum ekki með mestu breiddina í upphafi móts og höfum að undanförnu þurft að spila án þriggja stigahæstu leikmanna okkar vegna meiðsla. Það er erfitt að ganga í gegnum slíkt. Við fundum reyndar lausnir í sókninni í kvöld en við vörðumst illa og ef þú spilar ekki vörn þá ganga hlutirnir ekki upp. Við verðum bara að halda höfðinu uppi þó að við séum svekktir með að vera fallnir,“ sagði Olson og bætti við að byrjunin á mótinu hefði orðið liðinu að falli.

„Við spiluðum leiki í upphafi móts þar sem við vorum að tapa á lokamínútunum í jöfnum leikjum. Það var erfitt að grafa sig uppúr þeirri holu en betri úrslit fyrsta mánuðinn hefðu getað breytt niðurstöðunni í vetur. Þegar þú ert með minnsta fjármagnið og yngsta liðið þá má ekki gera of miklar væntingar. Menn höfðu tækifæri en til þess að nýta það þá þurfti að spila yfir væntingum í allan vetur. Við vorum í erfiðri stöðu þegar leið á og en ég verð að hrósa liðinu mínu fyrir að standa saman og leggja sig fram. Það er auðvitað ekki gaman að tapa með 30 eða 40 stigum en menn hafa fengið tækifæri til að spila á í efstu deild og menn eru reynslunni ríkari.“

Leikurinn í kvöld var jafn framanaf og þó að fátt væri um varnir hjá heimamönnum varð munurinn ekki mikill fyrr en undir lok 2. leikhluta. Staðan var 25-29 að tíu mínútum liðnum og 45-59 í hálfleik.

FSu byrjaði hins vegar afleitlega í seinni hálfleik og skoraði ekki stig fyrstu sex mínútur 3. leikhluta. Á meðan léku Keflvíkingar á alls oddi í vörn og sókn og náðu 34 stiga forskoti, 55-89. Þar með voru dagar FSu í deildinni taldir en síðasti fjórðungurinn var jafn, þó að Keflvíkingar væru skrefinu á undan og FSu náði ekki að minnka bilið.

Liðið hefur nú 6 stig í 11. sæti deildarinnar, en ÍR-ingar eru öruggir með sæti sitt í 10 sæti með 12 stig.

Tölfræði FSu: Christopher Woods 22 stig/14 fráköst, Gunnar Ingi Harðarson 16 stig/4 fráköst/8 stoðsendingar, Geir Elías Úlfur Helgason 12 stig, Bjarni Geir Gunnarsson 6 stig, Svavar Ingi Stefánsson 6 stig, Ari Gylfason 5 stig, Maciej Klimaszewski 2 stig, Þórarinn Friðriksson 2 stig, Arnþór Tryggvason 2 stig.

Fyrri greinHinir ótrúlegu sigruðu í Flóafárinu
Næsta greinHSU semur við TRS