FSu er Fyrirmyndarfélag ÍSÍ

Í hálfleik á síðasta heimaleik FSu í 1. deild karla í körfubolta afhenti Sigríður Jónsdóttir, ritari framkvæmdastjórnar ÍSÍ og formaður fræðslu- og þróunarsviðs sambandsins, félaginu viðurkenningu sem „Fyrirmyndarfélag ÍSÍ“.

Viðurkenning þessi byggir á Gæðahandbók sem skila þarf inn og uppfylla ákveðin skilyrði. Gæðahandbókin er lýsing á stjórnun og starfsemi félagsins. Þar eru sett fram ítarleg markmið fyrir starf félagsins og leiðir að þeim; aldursgreind markmið og áherslur í körfubolta, en einnig félagsleg markmið, markmið fyrir fjármál og rekstur, markmið í umhverfismálum ofl. Í Gæðahandbókinni er einnig viðbragðsáætlun og forvarnarstefna gegn einelti, mismunun og hvers kyns ofbeldi.

Stjórn Körfuknattleiksfélags FSu hefur undanfarna mánuði unnið að því að endurskoða, auka og bæta gæðahandbókina en félagið hefur einu sinni áður hlotið þessa viðurkenningu, sem veitt er til fjögurra ára í senn.

Kjartan Björnsson, formaður íþrótta- og menningarnefndar Sveitarfélagsins Árborgar, var viðstaddur og óskaði félaginu til hamingju, en sveitarfélagið styrkir Fyrirmyndarfélög og -deildir í Árborg um 700 þúsund krónur við afhendingu og síðan 500 þúsund krónur á ári meðan viðurkenningin er virk.

Fyrri greinSkoðanir
Næsta greinDásamlegar raw súkkulaði brownies