FSu áfram á sigurbraut

Gott gengi FSu í 1. deild karla í körfuknattleik heldur áfram en Selfyssingar lögðu Skallagrím í Iðu í kvöld, 87-70.

Það voru reyndar gestirnir sem byrjuðu betur og leiddu þeir að loknum 1. leikhluta, 16-20. FSu svaraði fyrir sig í 2. leikhluta og leiddu í hálfleik, 40-34.

Þriðji leikhluti var spennandi en Skallagrímur náði strax að minnka muninn í eitt stig, 40-39. Þá kom 10-3 kafli hjá FSu sem leiddi með sjö stigum, 57-50 þegar síðasti fjórðungurinn hófst.

Þá kom annað áhlaup frá Skallagrími sem minnkaði muninn aftur í eitt stig þegar rúmar þrjár mínútur voru liðnar af 4. leikhluta, 64-63. Selfyssingar stóðust þó pressuna og á lokakaflanum kom 12-3 kafli hjá liðinu sem skilaði 87-70 sigri.

Richard Field var að vanda stigahæstur hjá FSu með 29 stig og 13 fráköst. Valur Orri Valsson skoraði 20 stig og Guðmundur Auðunn Gunnarsson 11.

Hjá Skallagrími skoraði Darrell Flake 19 stig og Halldór Gunnar Jónsson 18.

FSu er aftur komið í 2. sæti deildarinnar með 10 stig eins og Þór Ak. en betri úrslit innbyrðis.

Staðan:
1 Þór Þ. 6/0
2 FSu 5/1
3 Þór Ak. 5/1
4 Skallagrímur 3/3
5 Valur 3/3

6 Breiðablik 2/3
7 Ármann 2/4
8 Laugdælir 2/5
9 Leiknir 1/4
10 Höttur 1/6

Fyrri greinÞórsarar jörðuðu Laugdæli í lokin
Næsta grein„Mér að kenna“