Frumsýningarveisla Jóns Daða

Forráðamenn og velunnarar Knattspyrnudeildar Selfoss hittust í Tryggvaskála á Selfossi í gærkvöldi til þess að kveðja Jón Daða Böðvarsson, fyrsta leikmanninn sem seldur er frá deildinni til erlends liðs.

Eins og knattspyrnuáhugamenn vita eflaust var Jón Daði seldur til norska úrvalsdeildarliðsins Vikings í Stanvangre fyrir stuttu og vildu forráðamenn knattspyrnudeildarinnar þakka honum fyrir velunnin störf með þessu hófi.

Nokkrir tóku til máls og veislustjórinn, Halldór Björnsson, sýndi myndband sem hann hafði sett saman til heiðurs Jóni.

Halldór vildi reyndar ekki meina að þarna væri um kveðjuhóf að ræða, heldur frumsýningarveislu.

Knattspyrnudeildin og Jón hefðu unnið að þessu markmiði um langt skeið og nú væri kominn tími til að frumsýna verkið.

Jón Daði hélt utan í morgunn og verður fyrsta æfingin hjá nýju félagi á mánudaginn, en keppnistímabilið í Noregi hefst í mars.

Nánar verður fjallað um þetta hóf í næsta tölublaði Sunnlenska á miðvikudaginn.

Fyrri greinHeitavatnslaust í Ölfusinu – viðgerð lokið
Næsta greinMikið af köldu vatni finnst við heitavatnsleit