Frjálsíþróttaskóli UMFÍ á Selfossi í sumar

Í sumar verður Frjálsíþróttaskóli UMFÍ starfræktur í sjöunda sinn á HSK svæðinu og í ár er hann á Selfossi 12.-16. júní og er haldinn í samstarfi við Frjálsíþróttaráð HSK. Skólinn er ætlaður fyrir börn á aldrinum 11 til 18 ára.

Ungmennin koma saman á hádegi á sunnudegi en skólanum lýkur á hádegi á fimmtudegi í sömu viku. Aðaláhersla er lögð á kennslu í frjálsum íþróttum.

Dagskráin er fjölbreytt og skemmtileg það er til dæmis farið í sund, leiki, haldnar kvöldvökur og endar skólinn svo með móti og pylsuveislu. Þáttökugjald í skólann er 20.000 kr. en innifalið í því er kennsla, fæði, gisting o.fl.

Aðalumsjónarmenn með skólanum 2016 eru Ágústa Tryggvadóttir og Fjóla Signý Hannesdóttir en einnig munu fleiri þjálfarar og aðstoðarmenn vinna við skólann. Lagt er upp með að fagmenntaðir kennarar sjái um kennsluna á hverjum stað til að tryggja sem besta kennslu fyrir ungmennin.

Í lok námskeiðsins fá öll ungmennin viðurkenningarskjal til staðfestingar um þátttökuna. Skólinn hefur fengið eindæma góð viðbrögð og ungmennin hafa farið sátt heim eftir lærdómsríka, krefjandi en umfram allt skemmtilega viku.

Skólinn á Selfossi 2015 var sá fjölmennasti sem haldin hefur verið frá upphafi en þá var hann fullbókaður með sextíu iðkendum. Nú þegar hafa borist margar skráningar fyrir skólann í ár.