Frískir Flóamenn og vetrarstarfið

Frískir Flóamenn á fyrstu æfingu vetrarins, síðastliðinn fimmtudag. Ljósmynd/Aðsend

Nú eru æfingar með þjálfara hafnar hjá Frískum Flóamönnum. Sigmundur Stefánsson mun sjá um þær í vetur eins og undanfarin ár.

Æfingar eru á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 17:15 og á laugardögum kl. 10 og hefjast þær við Sundhöll Selfoss. Æfingar eru opnar fyrir alla og ekki þarf að skrá sig.

Æfingarnar eru án gjalds þar sem hópurinn aflar fjár með vinnu við Laugavegshlaupið sem fer fram í júlí ár hvert. Hlauparar sem vilja og geta sinna sjálfboðastarfi fyrir hlaupahópinn með vinnu í Laugavegshlaupinu en um 40 starfsmenn frá Frískum Flóamönnum sinna brautarvörslu og þjónusta hlaupara í hlaupinu. Þann 17. júlí síðastliðinn tóku tæplega 700 hlauparar þátt í Laugavegshlaupinu. Þar á meðal voru fjórir Frískir Flóamenn, sem öll stóðu sig með prýði.

Fríska Sólheimahlaupið 25. september
Næsta verkefni er Fríska Sólheimahlaupið en það fer fram laugardaginn 25. september næstkomandi. Þá heimsækjum við heimilismenn á Sólheimum og hlaupum með þeim frá Borg að Sólheimum, um 9 km. Þá verður einnig afhentur framfarabikar til þess íbúa á Sólheimum sem hefur sýnt mestar hreyfiframfarir síðasta árið. Þetta hlaup hefur verið haldið í september ár hvert í mörg undanfarin ár og tekist mjög vel. Þá eru fyrirhuguð fræðslukvöld, m.a. um nauðsynlegan útbúnað í hlaupum og þá sérstaklega í utanvegahlaupum og ýmislegt fleira.

Æfingar hópsins eru jafnan 45-90 mín. Styttri hlaup eins og bæjarhringir 7-10 km eða hraðaleikir í Hellisskógi á virkum dögum en lengri rólegri skokk á laugardagsmorgnum. Allir eru velkomnir á æfingar hvort sem þeir er byrjendur eða lengra komnir. Áhugasamir geta sótt um aðgang að FB-síðu hópsins.

Fyrri greinHlaup hafið úr Eystri-Skaftárkatli
Næsta greinHamar-Þór fékk skell í bikarnum