Frískir Flóamenn hlupu í München

Í byrjun október hélt nítján manna hópur Frískra Flóamanna í víking til Bæjaralands til að taka þátt í München-maraþoni sem fram fór 11. október. Allir stóðu sig vel en umfram allt nutu daganna með bros á vör.

Í Munchen var boðið upp á maraþon (42 km) hálfmaraþon (21 km), 10 km og maraþonboðhlaup. Frískir Flóamenn voru meðal 51 íslenskra hlaupara sem tóku þátt og voru fjölmennastir íslensku þátttakendanna.

Tíu Frískir Flóamenn hlupu maraþon og voru fimm þeirra að fara sitt fyrsta maraþon. Aðrir hlupu 21 km eða 10 km og voru sumir þeirra að fara sitt fyrsta keppnishlaup. Svo voru þarna reynsluboltar sem ekki hafa tölu á sínum keppnishlaupum.

Bestum árangri náði Sigmundur Stefánsson, en hann hljóp maraþon á 3:16:37 mín og var fjórði í sínum aldursflokki, 60-64 ára. Þetta er jafnframt HSK-met í aldursflokknum og annar besti árangur Íslendings frá upphafi í flokknum. Þá varð Ingileif Auðunsdóttir 10. í sínum aldursflokki, 60-64 ára, en þetta var hennar fyrsta maraþon. Hún hljóp á tímanum 4:43:16 mín og er það annar besti árangur 60-64 ára kvenna innan HSK og fimmti besti á landsvísu. Þá voru nokkrir að stórbæta sína tíma.

Ferðin tókst í alla staði mjög vel og eru Frískir þegar farnir að ræða næstu utanlandsferð.

Fyrri greinJörð skelfur við Ölfusárósa
Næsta greinMcGuire með 31 stig í tapleik