Glæsileg uppskeru- og verðlaunahátíð æskunnar hjá Hestamannafélaginu Geysi fór fram í Rangárhöllinni síðastliðinn sunnudag. Afreksbikarana hlutu Fríða Hildur Steinarsdóttir í barnaflokki og Sigurður Steingrímsson í unglingaflokki.
Þau stóðu sig bæði frábærlega í keppni á árinu 2022 en Fríða var meðal annars í 2. sæti í barnaflokki á Landmóti hestamanna og Sigurður stóð uppi sem sigurvegari í unglingaflokki á Landsmótinu.
Á hátíðinni var farið yfir æskulýðsstarfið síðastliðið ár, sem og komandi viðburði og reiðnámskeið. Sigurður Sigurðarson, knapi ársins hjá Geysi og Kristján Árni Birgisson, ungmenni ársins hjá Geysi, mættu á hátíðina og sögðu skemmtilega frá hvernig þeirra hestamennska byrjaði og hvað þeim finnst skipta mestu máli til að ná árangri í keppni.
Eftir verðlaunaafhendingu var svo boðið upp á pizzuveislu.