Fríða mætti aftur í jafnteflisleik

Fríða bregður á leik með bróðurdóttur sinni Emblu Katrínu Oddsteinsdóttur, en þær eru loksins orðnar liðsfélagar á Selfossi. Ljósmynd/Úr einkasafni

Selfoss heimsótti Fram í 2. umferð 1. deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld. Liðin skildu jöfn, 2-2, en athygli vakti að gamla kempan Hólmfríður Magnúsdóttir tók fram skóna og lék síðasta korterið í leiknum.

Hólmfríður er ein leikjahæsta knattspyrnukona Íslandssögunnar en hún lék síðast með Selfyssingum í september 2022 og er búin að eignast sitt annað barn í millitíðinni.

Fram komst yfir á 7. mínútu eftir hornspyrnu og klaufagang í vörn Selfoss. Þær vínrauðu létu það ekki á sig fá og Embla Dís Gunnarsdóttir jafnaði metin með góðu skoti úr teignum tíu mínútum síðar. Afmælisbarnið Guðrún Þóra Geirsdóttir skoraði svo glæsilegt mark þegar hún þrumaði boltnum með vinstri upp í skeytin með skoti fyrir utan vítateig.

Staðan var 1-2 í hálfleik en á 62. mínútu sneri sóknarmaður Fram Selfossvörnina af sér, stakk sér innfyrir og skoraði af öryggi. Selfyssingar voru líklegri á lokakaflanum og var Hólmfríður sú hættulegasta eftir að hún kom inná á 76. mínútu. Fríða slapp innfyrir skömmu síðar og skaut rétt yfir markið og í uppbótartímanum átti hún góða fyrirgjöf þar sem Embla Dís skallaði boltann beint á markmann Fram af markteignum.

Selfoss er í 8. sæti deildarinnar með 2 stig eftir tvær umferðir en Fram í toppsætinu með 4 stig.

Fyrri greinAlexander nýr framkvæmdastjóri Gleipnis
Næsta greinRazvan opnaði markareikninginn í tapleik